Um Ástþór

Líf og störf Ástþórs Magnússonar

Hver er Ástþór?

Ástþór fæddist í Reykjavík 4. ágúst 1953. Eftir landspróf hóf Ástþór nám í Verslunarskóla Íslands en fór síðan til Bretlands í nám við Medway College of Art and Design og lauk prófi í auglýsingaljósmyndun og markaðsfræðum. Hann sótti síðan fjölda námskeiða bæði heima og erlendis í stjórnun og rekstri fyrirtækja.

Stofnaði fyrsta kreditkortafyrirtæki landsins

Ástþór var upphafsmaður að stofnun Eurocard á Íslandi árið 1979 en það var fyrsta kreditkortafyrirtæki landsins. Ástþór stofnaði einnig og rak um árabil ljósmyndagerð og póstverslunarfyrirtæki með útibúum í Færeyjum og Danmörku.

Árið 1983 flutti Ástþór til Danmerkur og síðan til Bretlands þar sem hann gerðist frumkvöðull í þróun tölvutækni fyrir gagnvirk upplýsinga- og verslunarkerfi. Hann kom einnig að flugrekstri um árabil og er með yfir 2000 flugtíma mest við stjórn á litlum einkaþotum.

Stofnandi Friðar 2000

Ástþór var upphafsmaður að stofnun Friðar 2000 www.peace2000.org með þátttöku meira en 100 erlendra friðarsamtaka og yfir 1000 einstaklinga árið 1995. Ástþór hefur hlotið tvenn mannúðarverðlaun, Gandhi verðlaunin og Heilaga Gullkrossinn frá Grísku rétttrúnaðarkirkjunni, en það var UNESCO í Grikklandi sem tilnefndi Ástþór til verðlaunanna.

Ástþór Magnússon stofnaði samtökin Frið 2000 árið 1995 eftir að hafa orðið fyrir andlegri hugljómun árið 1994, þá liðlega fertugur að aldri.

Það má með sanni segja að ‘enginn er spámaður í sínu heimlandi’ um Ástþór Magnússon, því hann varð fyrir miklu mótlæti á Íslandi eftir að samtökin hófu starfsemi og byrjuðu að kynna hugsjónina um Ísland sem fyrirmynd annarra landa í friðarmálum.

Spáði fyrir um 911 hryðjuverkin í sjónvarpsviðtali

Hugmyndir Ástþórs áttu á þeim tíma ekki upp á pallborðið hjá æðstu stjórnendum þjóðarinnar sem vildu kveða í kútinn óþægileg mótmæli Ástþórs og Friðar 2000 gegn undirlægjuhætti þeirra við ógnvænlega stríðsæsingastefnu Bandaríkjanna. Ástþór hefur ítrekað verið sannspár um hættuna af þessari stefnu og spáði m.a. fyrir um hryðjuverkin 11. September 2001 í sjónvarpsviðtali á Stöð2 mörgum mánuðum áður en það gerðist.

Fyrsti pólitíski fanginn á Íslandi

Þrátt fyrir að hafa verið nær lagður í einelti með rógburði í fjölmiðlum, fjáröflunarstarfi lokað með ólögmætum hætti, handtekinn og settur í fangelsi fyrir það eitt að vara við augljósri hættu á hryðjuverkum gegn Íslenskum flugfélögum ef þau yrðu notuð til vopnaflutninga til Mið Austurlanda eins ríkisstjórnin ætlaði að gera þar til Ástþór flautaði á málið, hefur Ástþór verið trúr sinni hugsjón og haldið ótrauður áfram.

Ný hugmyndafræði í alþjóða stjórnmálum

Ástþór kynnti hugmyndafræði sína í forsetaframboði 1996 og í bókinni “Virkjum Bessastaði” sem dreift var á öll heimili landsmanna. Ástþór hefur lýst því yfir að hann muni áfram bjóða sig fram til Forseta Íslands þegar tækifæri bjóðast til og stuðningsmenn hans segja engum manni betur treystandi til að leiða embætti Forseta Íslands inn í nýja tíma með áherslu á friðarmál en Ástþóri Magnússyni. Að hann sé búinn að sýna það og sanna að hann verður ekki ‘keyptur’ eða yfirbugaður hvað sem á dynur. Það sé einmitt slíkann mann sem þurfi til að takast á við það erfiða verkefni að kynna leiðtogum heims hina einstöku sögu okkar Íslendinga og hverning okkur hefur tekist að búa sem vopnlaus þjóð við frið lengur en nokkurt annað ríki á jörðinni grunvallað á okkar gamla Alþingi sem nú er talið elsta lýðræðisstofnun heims. Hugmyndir Ástþórs sem byggja á þessari einstöku sögu Íslands og uppbyggingu á alþjóðlegum friðarsveitum eru áhugavert innlegg inn í alþjóðamálin sem tími er kominn til að taka alvarlega.

Fjölskylda

Ástþór er sonur Magnúsar K. Jónssonar byggingameistara og Unnar H. Lárusdóttur. Þau eru bæði látin. Ástþór er einn fimm systkina. Hjónin Ástþór Magnússon Wium og Natalía Wium gengu í hjónaband í Þingvallarkirkju þann 11 febrúar 2004. Þau kynntust fyrst á styrktartónleikum fyrir Mæðrastyrksnefnd í Reykjavík þann þriðja í jólum 2001.  Ástþór var hér í jólafríi að heimsækja fjölskyldu sína en hann bjó þá í London.  Natalía flutti til Íslands í janúar 2000 er hún giftist fyrri manni sínum Jóni Benediktssyni héraðslækni. Natalía fæddist í Rússlandi 31. janúar 1975 og nam lögfræði við háskólann í St.Pétursborg. Ástþór á eina dóttur frá fyrra hjónabandi og þrjú barnabörn.
Load More