Forsetinn sem kom friði á í Rómönsku Ameríku telur hugmyndir Ástþórs um forsetaembættið hafa raunverulega möguleika til árangurs.
OSCAR Arias, friðarverðlaunahafi Nóbels 1987 og forseti Costa Rica frá 1986-1990, segist í grein sinni hér hér vera mjög ánægður yfir því að Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi skuli hafa kosið að gera friðarmál að aðalkosningamáli sínu. Segir Arias að Ástþór (Thor Magnusson) hafi fært gild rök fyrir því að Íslendingar geti ekki snúið baki við þeim sem þjáist í einangrun sinni.
Arias tilgreinir dæmi um það hvernig forseti eins og Ástþór gæti beitt sér fyrir afvopnun og friði á erlendri grundu. Rifjar hann upp tíma frá sinni eigin forsetatíð, þegar nýr forseti, Guillermo Endara, tók við stjórnartaumum í nágrannaríkinu Panama árið 1989 eftir fall Manuels Noriega. Hafi Endara sóst mjög eftir viðurkenningu nágrannaríkjanna í Rómönsku Ameríku, sem hafi verið tortryggin gagnvart því að Endara drægi taum Bandaríkjanna sem komið hafi honum til valda. Arias sagðist myndu viðurkenna stjórn Endara gegn afnámi hersins í Panama, sem gengið hafi eftir árið 1994.
Lítil þjóð, takmarkalaus framtíðarsýn
Oscar Arias Sánchez skrifar:
"...er ég afar ánægður að sjá að Ástþór Magnússon hefur ákveðið að gera heimsfrið að aðalatriði í kosningabaráttu sinni."
CERVANTES skrifaði að friður væri mikilvægastur alls sem maðurinn gæti óskað fyrir þessa jörð. Teljir þú þig meðal þeirra sem eru sammála þessum orðum munt þú fljótlega sjá hve mikilvægt það er að eiga hlutdeild í baráttunni með skyldum sálum, félagi þinn Kíkóti, bæði heima og að heiman. Á sama hátt og sá sem hefur séð að friður er erfitt og vandasamt verk, er ég afar ánægður að sjá að Ástþór Magnússon hefur ákveðið að gera heimsfrið að aðalatriði í kosningabaráttu sinni.
Þegar rætt er um heimsfrið er nauðsynlegt í sama vetfangi að minnast á þá þörf sem er á kærleika, sem er að sjálfsögðu nánast bannorð í pólitískum umræðum í dag. Það eru til ótal bölsýnismenn sem halda því fram að sá sem er tilbúinn til að berjast fyrir lítilmagnanum, að vinna að friði, að binda enda á þjáningar mannsins, sé einungis draumóramaður. Það afskiptaleysi sem hlýst af þessu viðhorfi hefur orðið að alheimssjúkdómi. Í okkar veröld virðast bestu tækifærin til samskipta vera í endalausri eyðimörk þagnar og einsemdar.
Í einsemd mega bræður okkar í Afríku þola þá kvöl að horfa upp á börnin sín deyja sökum vannæringar og sjúkdóma. Í einsemd dregst unga fólkið okkar inn í það logandi víti sem eiturlyfjaneysla er.
Í einsemd hverfa börnin sem verða fyrir ofbeldi í stríðshrjáðum borgum, og í einsemd þjást fangar í öllum þeim fangabúðum sem enn eru til í heiminum. Þær milljónir barna sem aldrei munu læra stafrófið skynja þá óheillavænlegu einsemd sem fylgir þekkingarleysi.
Huldir einsemd eru þeir vegir sem milljónir flóttamanna ganga sem hrekjast undan stríðsátökum og vesöld.
Girtir veggjum einsemdar eru þeir sjúku sem ekki hafa aðgang að þeim undrum sem nútímalæknisfræði hefur upp á að bjóða, meðan vinnuframlagi þeirra er eytt í eltingarleik stjórnvalda við hernaðaryfirráð.
Hvað er til ráða? Með hvaða hætti getur gott samfélag tekist á við aðstæður sem skapa slíka örvæntingu? Ástþór Magnússon hefur af umhyggju fært rök fyrir því að Íslendingar geta ekki snúið baki við þeim sem þjást í einsemd. Samt sem áður vekur sú hugmynd að Ísland ætti að stefna að auknum friði utan landsteinanna aðrar efasemdir og deilur. Hvers konar áætlun í friðarmálum ætti Ísland að leggja fram til alþjóðasamfélagsins? Getur þessi eyþjóð án mikilla efnahagslegra og hernaðarlegra áhrifa virkilega breytt einhverju á þeim tímum sem stjórnmálin snúast um að þeir sterku hafi ávallt rétt fyrir sér?
Mig langar að deila sjónarhorni frá Costa Rica á þessa og aðrar spurningar, í þeirri von að mikilvægir sameiginlegir þættir landa okkar beggja muni gera athugasemdir mínar mikilvægar.
Þrátt fyrir þær augljósu náttúrufræðilegu andstæður við Ísland, viðamikla jöklana við hlið hitabeltis Costa Rica, deila þessar tvær þjóðir ómetanlegum hefðum í friðarmálum sem tengja okkur í gegnum fjarlægð og ólíka menningu.
Í fyrsta lagi má nefna þann arf sem felst í lýðræðislegum stofnunum; Ísland á sér langa sögu alþingisfunda, meðan Costa Rica getur státað af elsta lýðræði í Rómönsku-Ameríku. Í sameiningu eru lönd okkar lifandi dæmi um þá fjölbreytni og þann þrótt sem getur verið til staðar í lýðræði nútímans.
Í öðru lagi, sem er jafnvel enn merkara í nútímanum, eru bæði Ísland og Costa Rica nútímaríki sem ekki hafa her. Við treystum ekki á öryggi okkar með einhliða hernaði heldur treystum við á alþjóðleg lög. Við trúum að hægt sé að reiða sig á það sem þjóðin hefur upp á að bjóða og fjárfestum í efnahagslegri þróun og samfélagslegu öryggi þegnanna fremur en að fjárfesta í hervæðingu.
Hið áhrifamikla dæmi um friðsamlegar hefðir okkar gefur Íslandi og Costa Rica möguleika á að styðja frið og koma honum á framfæri án hernaðar í öðrum hlutum heimsins. Við getum ekki sagt öðru fólki hvernig löndum þeirra ætti að vera stjórnað heldur ættum við að vera þeim gott fordæmi og til fyrirmyndar. Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að saga okkar er blessun og, til að umorða orð Matteusar, þá ættum við að láta ljós okkar skína um gjörvalla veröldina.
Hér vil ég koma með eitt dæmi um nærgætna aðferð sem forseti eins og Ástþór Magnússon gæti notað til að hvetja til friðar og afvopnunar í öðrum löndum. Árið 1989, þegar ég var enn forseti Costa Rica, hröktu Bandaríkin einræðisherrann Manuel Noriega frá Panama, nágrönnum okkar í suðri, og settu Guillermo Endara í embætti. Hinn nýi forseti sóttist mjög eftir viðurkenningu stjórnvalda annarra landa Rómönsku-Ameríku, sem voru tortryggin og grunuðu hann sem útsendara Bandaríkjamanna.
Ég lofaði að viðurkenna ríkisstjórn Endara ef hann lofaði því á móti að afnema herinn í Panama. Hann samþykkti það fúslega og skömmu síðar bauð Arias-stofnunin löggjöfum frá Panama til Costa Rica til að unnt væri að sýna þeim fram á að land án hers væri til og virkaði á eðlilegan hátt. Í október 1994 var útrýming hersins komin í stjórnarskrána. Þetta vil ég kalla heimsvaldastefnu Costa Rica!
Í forsetatíð minni gat ég þess ótal sinnum við íbúa Costa Rica: "Plöntum friði út fyrir landamæri okkar svo enginn vogi sér nokkurn tíma að planta stríði í okkar jarðveg." Ég gerði mér grein fyrir að Costa Rica myndi stofna í hættu sinni eigin stefnu í afvopnun og lýðræði er við létum hjá líða að flytja þá hugmyndafræði til ófriðsamra nágrannaríkja. Lok vopnaðrar baráttu í okkar landshluta hefur eingöngu styrkt sannfæringu okkar. Í þessari ótrúlega samtengdu veröld okkar má hvorki Ísland né Costa Rica falla í þá gryfju vanþekkingar að halda að það sé hægt að byggja upp paradís innan landamæra okkar með logandi víti utan landamæranna.
Það munu alltaf vera til bölsýnismenn sem halda því fram að það sé ógerningur og heimskulegt að lítil þjóð hafi afskipti af alþjóðamálum. Sjálfur var ég stimplaður sem einfaldur draumóramaður í kringum 1980 fyrir að trúa því að hægt væri að gera samkomulag til að friða hina stríðshrjáðu Mið-Ameríku. Þeir sem kölluðu sig raunsæismenn staðhæfðu að forseti hins litla lands, Costa Rica, gæti aldrei nokkurn tíma hindrað ofuröflin í því að sækjast eftir hernaðarsigri á svæðinu. Undirritun friðarsáttmálans árið 1987 af fimm forsetum sýndi fram á að raunsæismennirnir höfðu rangt fyrir sér. Einhvern tíma er allt fyrst!
Franski stjórnmálamaðurinn Francois Guizot sagði eitt sinn að framtíðin væri í höndum bjartsýnismannanna; bölsýnismennirnir væru eingöngu áhorfendur.
Ég er enn bjartsýnn og trúi því að lítil en stolt þjóð geti breytt gangi sögunnar með því að útbreiða, ekki hernaðarlega hugmyndafræði, heldur friðaráætlun. Ég trúi því að Íslendingar hafi allar ástæður til að vera bjartsýnir og á þann hátt, með hvetjandi forystu, geti nafn þeirra fallega lands verið samheiti yfir árangursríkar tilraunir til að skapa heim með meiri samstöðu og minni einstaklingshyggju; meiri heiðarleika og minni hræsni; meiri gegnsæi og minni spillingu; meiri samúð og minni eigingirni. Í stuttu máli, heim með meiri kærleika.
Eftir Oscar Arias Sánchez
Höfundur var forseti Costa Rica frá 1986 til 1990. Árið 1987 fékk hann friðarverðlaun Nóbels fyrir þá viðleitni sem hann sýndi til að koma á friði í Mið-Ameríku.