Ævintýralegt lífshlaup forsetaframbjóðanda – Hætt kominn eftir að eiginkonu ferðafélagans dreymdi illa fyrir fluginu

Hann er langt á undan sinni samtíð; frumkvöðull og friðarsinni sem vill gera heiminn að miklu betri stað og beita embætti forseta Íslands til þess. „Ég vil sjá Ísland verða land friðarsins,“ segir Ástþór Magnússon viðmælandi Mumma í nýjasta þætti Kalda Pottsins. Í þættinum fara þeir Mummi í gegnum ævintýralegt lífshlaup Ástþórs og rifja meðal annars upp hvernig hann komst sem fréttaljósmyndari Sunday Times til Vestmannaeyja á meðan gosið stóð sem hæst, hvernig útsendari Thatcher stjórnarinnar í Bretlandi hafði upp á honum í Danmörku til að laða efnilegt fyrirtæki hans til Bretlands, hvernig tölvukaup urðu kveikjan að stofnun fyrsta kreditkorta fyrirtækis hérlendis, hvernig hann efnaðist og fór ferða sinna á einkaþotu, hvernig Friður 2000 varð til, hvernig hann bjargaði veikri stúlku frá Bagdad og flutti hana til Hollands árið sem hann flaug með jólapakka til Íraks og fjölmargt fleira sem á hans daga hefur drifið.

Snemma beygist krókurinn

Áhugi Ástþórs á viðskiptum og frumkvöðlastarfi kviknaði snemma. Hann varði sparifé sínu 12 ára gamall til kaupa á prentvél sem hann svo notaði til að prenta út kort og seldi í hverfi sínu. Fljótlega var hann farinn að halda úti lítilli prentsmiðju úr kjallaranum á æskuheimilinu.

En það var ekki nóg. Til staðar var bílskúr og hann mátti brúka í menningarstarf. Ástþór kom þar upp sviði og virkjaði nágrennið til að setja upp leiksýningar. Systur hans og frændi voru virkjuð til aðstoðar í miðasölu, nokkuð sem þau segja Ástþór hafa haldið þeim við af hörku.

Prentsmiðjan fékk svo nýtt hlutverk þegar Ástþór fór að gefa út skólablaðið Gosa í Langholtsskóla. Þá gekk hann milli fyrirtækja í nágrenninu til að selja auglýsingar og öðlaðist skólablaðið svo sjálfstætt líf og varð að táningaritinu Jónínu sem varð svo vinsælt að þegar tónleikar á vegum útgáfunnar voru haldnir í háskólabíó seldist upp og umframeftirspurnin svo mikil að táningar börðu á veggi húsnæðisins til að reyna að komast inn af svo miklum ofsa að rúður féllu í valinn. Fyrir vikið sagði rekstraraðili Háskólabíós að Ástþór fengi aldrei að koma þangað inn aftur.

Ekki var þó faðir Ástþórs ánægður með þessa atvinnustarfsemi í kjallaranum og lagði að syni sínum að selja reksturinn. Það gerði hann og sameinaðist Jónína öðru blaði, Samúel. Ástþór segir að á dögum Jónínu hafi hann þó fengið heiðurinn af fyrstu forsíðunni í lit á Íslandi, sem var nokkuð vel af sér vikið. Og þarna var kominn áhugi á prenti og útgáfu.

Faldi sig í eldgosinu í Vestmannaeyjum

Næst hélt Ástþór til Bretlands þar sem hann nam ensku áður en hann sneri sér að ljósmyndun og markaðsstarfi. Með námi var hann blaðaljósmyndari á Vísi.

Þegar eldgosið hófst í Vestmannaeyjum ákvað þessi ungi ljósmyndaranemi að þangað yrði hann að komast. Það var þó ekki hlaupið að því að komast til Eyja í miðju gosi og voru góð ráð dýr.

Hann hafði þá samband við breska blaðið Sunday Times. Tilkynnti þeim að hann væri reyndur blaðaljósmyndari og hafi meðal annars myndað alla keppendur í ungfrú Ísland. Sunday Times greiddu götuna fyrir Ástþór sem hélt heim til Íslands og fór svo með öðrum erlendum fjölmiðlamönnum til Eyja.

Aðstæður voru þá þannig að fjölmiðlum var tilkynnt að þetta yrði stutt stopp í Eyjum. Aðeins 40 mínútur og svo þyrftu þau að snúa til baka. Ástþór tók það ekki í mál, fór og faldi sig í kjallara og endaði með að verja töluverðum tíma í Eyjum. Hann sendi svo filmur til Sunday Times og voru myndir frá honum notaðar í umfangsmikla umfjöllun. Hann seldi svo myndirnar í ljósmyndasafn og hafði svo góðar tekjur af því að hann gat keypt sér bíl.

Næsta viðskiptahugmynd hans tengist einnig ljósmyndum. Honum datt í hug a senda fólki filmur með póstpoka svo það gæti sent filmurnar sjálft í framköllun. Þessi rekstur gekk með eindæmum vel og endaði Ástþór í Kaupmannahöfn þar sem hann rak fyrirtæki sem byggði á þessari hugmyndafræði.

Hætt kominn eftir að kviknaði í hreyfli

Á Íslandi hafði hann lært að fljúga og varði hann nú tímanum í að fjúga milli Kaupmannahafnar og Bretlands og segir að flugvélin hafi eiginlega verið sölubíllinn hans. Hann var með sýnishornin sín um borð og flug á tveggja hreyfla vél sem hann hafði keypt sér.

„Ég lenti svo í því að ég missti þessa vél þannig að það kviknaði í hreyfli á henni. Hún var nýkomin úr skoðun í Newcastle og ég fór til Íslands að heimsækja fjölskylduna. Flaug yfir Atlantshafið og lenti hérna heima. Svo fer ég út til Leeds Bradford í Bretlandi.“

Þar hitti hann forstjóra fyrirtækis sem hann hafði verið í viðskiptum við og oft flogið með áður. Sá var hrifinn af litlu vélinni hans Ástþórs og hafði jafnvel tekið konuna sína með í flug. Sérstaklega var forstjórinn hrifinn af litnum en Ástþór hafði málað vélina bleika og gráa sem voru einkennislitirnir hjá rekstri hans. Að þessu sinni ætluðu þeir að fljúga saman til Osló.

„Svo er ég að undirbúa brottförina og þá hringir hann og segir að hann geti ekki flogið með mér í þetta sinn. Hann ætli heldur að taka áætlunarflug. Konunni hans hafði nefnilega dreymt svo illa fyrir fluginu að hún harðbannaði honum að fara með mér.

Ég fer þá bara einn og fer í loftið, ég er varla kominn yfir Leeds Bradford borgina þegar kviknar í öðrum hreyflinum. Þetta var mjög skrýtið. Mér tekst þó að „feðra hreyfilinn“ eins og kallað er, gera annan hreyfilinn óvirkan. En eldurinn logar á fullu. Mér tekst að snúa vélinni til baka og lenda henni, en það var rétt svo. Því þegar tryggingarfélagið er búið að fara yfir vélina og skoða tjónið og allt þetta þá kemur í ljós að það höfðu átt sér mistök í viðhaldinu og ég hafði komið hársbreidd frá því að missa vænginn.“

Hamingjan ekki föl

Um fertugt varð Ástþór fyrir andlegri vakningu. Hann hafði þá komið sér mjög vel fyrir í lífinu. Hann átti einbýlishús í Norður Bretlandi, íbúð í London og aðra íbúð í Madeira á Spáni. Hann átti einkaflugvél, bíla og allt á blússandi siglingu.

Á Spáni kynntist hann því hvað peningar geta gert fólk galið. Þar var hann mikið í kringum auðfólk og flaug jafnvel með hertoga og aðra í skreppi ferðir milli landa. Honum er minnisstætt að fljúga eina ferð með innanhúshönnuð fyrir auðmann frá London til París bara til að kaupa gluggatjöld.

„Ég átta mig á að peningar eru ekki það sem lífið snýst um. Peningar gefa þér ekki hamingju, þeir eru eins og eldsneyti á bílinn. Þú þarft að hafa þá en það er engin framtíð fyrir sálina að stefna bara að því að eiga peninga.“

Þá fór Ástþór að leita að stærri tilgangi og þannig varð til hugmyndin að samtökunum Friður 2000. Ástþór vildi stuðla að samstarfi og samtali í heiminum sem miðar að því að breyta hernaði í þróunaraðstoð. Hann sá fyrir sér að hergagnaframleiðendur færu að smíða traktora í staðinn fyrir skriðdreka. Að hermenn færu að rækta upp land og leggja vatnsveitur frekar að marsera í stríð.

Styrjaldir eigi rætur að rekja til misskiptingu auðlinda og með því að rétta úr þessari misskiptingu megi stuðla að frið.

Ástþór segist hafa lagt hart að sér að koma sér í samstarf við önnur friðarsamtök í heiminum. Hann hafi fundið mikinn hljómgrunn og telur að það sem hann hafi strandað á áður en raunverulegum breytingum yrði komið á – sé pólitíkin.

Þess vegna horfi hann til Bessastaða. Þar sé embætti þjóðhöfðingja sem sé þvert á stjórnmálaflokka. Ekki sérstaklega til vinstri og ekki sérstaklega til hægri. Þar gefst færi á að ná til annarra þjóðhöfðingja og ráðamanna og með slíku samtali sé hægt að gera alvöru breytingar.

Jólasveinninn sem vakti heimsathygli

Hann sér fyrir sér að Ísland verði höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna. Það sé vitað að Bandaríkin séu ekki rétti staðurinn og þá sé upplagt að horfa til Íslands til að vera fulltrúi friðar í heiminum.

Ástþór nefnir dæmi um þann árangur sem aðferðafræði hans hefur náð. Þegar Bandaríkin voru í stríði við Írak hafi viðskiptaþvinganir orðið til þess að ekki var hægt að koma nauðsynlegum lyfjum til Írak. Þá flaug Ástþór til Baghdad, ásamt verkalýðsforingjanum Kristjáni Árnasyni, sem klæddur var sem jólasveinn, með leikföng frá íslenskum börnum, og lyf..

„Ofbeldi leiðir af sér ofbeldi. Hættið að nota börn í pólitík,“ var haft eftir Ástþóri í umfjöllun CNN árið 1997. Þá hafði hann eins komið að mannúðaraðgerðum fyrir börn sem slösuðust í kjarnorkuslysinu í Chernobyl sem og börnum í stríðshrjáðri höfuðborg Bosníu, Sarajevo. Í Baghdad barðist Ástþór eins fyrir því að koma ungri stúlku undir læknishendur í Hollandi. Stúlkan, Amal Saeed, var aðeins 5 ára gömul og glímdi við sjúkdóm og próteinskort. Þrátt fyrir að ekkert gengi að fá leyfi til að yfirgefa Baghdad. með Amal litlu þá hélt Ástþór blaðamannafund eftir blaðamannafund til að vekja athygli á aðstæðum. Tökulið frá CNN fylgdi honum eftir og á endanum lét Ástþór bara reyna á það að hreinlega fljúga stúlkunni til Hollands án nokkurra leyfa. Enginn reyndi að stöðva hann.

Og þó Ástþór eigni sér engan veginn friðarsúluna í Viðey þá telur hann að samtal sem hann hafi átt við fólk sem kom að skipulagningu gjörningsins hafi kveikt hugmyndina að Íslandi sem viðeigandi stað fyrir þetta friðartákn í heiminum.

Ástþór segist í kjarnann þrjóskur og hann eigi erfitt með að fara frá ókláruðu verki. Hugmyndin „Virkjum Bessastaði“ er eitt slíkt verk. Þetta hafi verið 28 ára barátta sem sé knúin áfram af hugsjóninni um að friður í heimi sé raunverulegur möguleiki og að Ísland sé í kjörinni stöðu til að taka þátt í og jafnvel leiða það verkefni.

Hlusta má á viðtalið við Ástþór og fyrri þætti Kalda pottsins á tyr.is eða á Spotify.

Kaldi Potturinn Stikla, Ástþór Magnússon

Allt viðtalið:

Kaldi Potturinn, Ástþór Magnússon
Load More