Vanhæfi og undirlægjuháttur við erlend ríki og stofnanir stefnir sjálfstæði og þjóðaröryggi Íslands í hættu. Við þurfum að standa vörð um að lenda ekki aftur undir erlendu valdi, hvort sem eru erlendar ríkisstjórnir, fyrirtæki eða stofnanir sem geta ógnað sjálfstæði íslendinga.
Samfélagsmiðlar og gervigreind
Það eru ekki aðeins erlendar stofnanir sem ógna sjálfstæði þjóðarinnar. Miðstýrðir samfélagsmiðlar eru byrjaðir að grafa undan lýðræðinu.
Facebook er orðið svo valdamikið á Íslandi, að nánast engin umræða getur átt sér stað milli kjörinna fulltrúa og þjóðarinnar nema með samþykki Meta. Stjórnendur og eigendur META og gervigreind sem þeir nota nú geta slökkt á mönnum og málefnum eftir geðþótta.
Ógn við sjálfstæða fjölmiðla
Meta hirðir til sín stærsta hluta auglýsingatekna á Íslandi og algerlega skattfrjálst. Þetta erlenda stórfyrirtæki hirðir ekkert um velferð íslensku þjóðarinnar og rekið hér með því markmiði að soga sem mest af fjármunum okkar úr landi án þess að gefa neitt til baka. Facebook sem í auknum mæli stjórnað með gervigreind greiðir ekki krónu í laun eða opinber gjöld á Íslandi þrátt fyrir að reka stærsta fjölmiðil landsins. Sjálfstæðir íslenskir fjölmiðlar eru að lognast út af vegna þessarar óheilbrigðu samkeppni sem nú tröllríður þjóðfélaginu.
Facebook tölvan segir NEI
Ég hef ekki haft aðgang að minni Facebook síðu í nær heilt ár. Ég fæ daglega tölvupósta um að einhver af þeim þúsundum sem fylgja mér á samfélagsmiðlinum hafi sett inn nýja mynd, skrifað póst eða sent mér persónuleg skilaboð. Ég get hins vegar engu svarað. Einnig hef ég ekki getað skrifað ummæli um fréttir eða málefni á íslenskum fréttasíðum því flestar þeirra nota Facebook kommentakerfið. Samband mitt við Ísland er því nánast að fullu rofið þar sem nær 100% þjóðarinnar notar Facebook til daglegra samskipta á Íslandi.
Á ferðalagi í suður Ameríku síðastliðið vor glataðist tæki með auðkennisappi en Facebook hafði innleitt kröfu um að nota slíkt við innskráningu á samfélagsmiðilinn. Einnig glötuðust innskráningalyklar mínir frá öðrum netveitum og bönkum. Þar var hinsvegar lítið mál að staðfesta innskráningu eftir öðrum leiðum og setja upp nýja app lykla. Hinsvegar segist Facebook ekki geta veitt neina slíka aðstoð. Sem betur fer lenti ég ekki í slíkri uppákomu hjá viðskiptabanka míns fyrirtækis enda hefði það stöðvað reksturinn samstundis og sett samskipti við starfsfólk og viðskiptavini í algert uppnám ef aðgangi að bankareikningum fyrirtækisins hefði verið lokað með sama hætti og Facebook lokaði aðgangi mínum að samfélagsmiðlinum. Þetta hefur sett samskipti mín þar við viðskiptavini og aðra í uppnám.
Facebook verði sektað um þúsund milljarða
Ég hef skrifað Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og vakið athygli á því að Facebook sé að hafa ólögmæt áhrif á lýðræðislegar kosningar á Íslandi í dag með því að útiloka mig sem forsetaframbjóðanda að eiga áframhaldandi og eðlileg samskipti við fylgjendur mína á stærsta samfélagsmiðil landsins.
Ný Evrópulöggjöf (Digital Services Act) setur skyldur á samfélagsmiðla í markaðsráðandi stöðu m.a. hvað varðar lýðræði. Fyrirtæki sem misnota aðstöðu sína eins og Facebook er að gera gagnvart mér sem frambjóðanda til forseta í lýðræðisríki innan Evrópu, getur átt von á sektum allt að 6% af ársveltu þeirra á heimsvísu. Meta fyrirtækið var með nær 127 milljarða dollara veltu á síðasta ári og gæti því sektin á META numið 7.6 milljörðum dala sem samsvarar þúsund milljörðum íslenskra króna. Hér má lesa bréf mitt til ÖSE.
Íslenskir ráðamenn sofandi á verðinum
Ítrekað á síðasta ári reyndi ég að vekja athygli fyrrum dómsmálaráðherra á hættunni sem væri að skapast af markaðsráðandi stöðu Facebook á Íslandi bæði hvað varðar frjálsa fjölmiðlun og lýðræðisþróun. Svörin sem ég fékk voru á þá leið að lítið væri hægt að gera, það væri ekki hægt að ná neinu vitrænu samtali við Facebook.
Forseta með framtíðarsýn
Ég vil beita mér fyrir því sem forseti að opna þær dyr sem þarf til að ná vitrænu sambandi við eigendur og stjórnendur Facebook og annarra samfélagsmiðla sem starfa á Íslandi. Ég vil ná samstarfi um að þeir verði látnir greiða eðlileg gjöld af sinni starfsemi hér á landi og að þeim verði skylt að veita eðlilega þjónustu við sína viðskiptavini hér á landi. Þeim verði skylt að hafa hafa virkt símanúmer og aðrar samskiptaleiðir til að tryggja að uppákomur eins og ég að mér skilst þúsundir annarra hafa lent í með lokun á aðgöngum verði ekki látið viðgangast.
Stjórnum okkur sjálf
Á næstu árum þarf að koma upp samfélagsmiðli sem þjóðin stjórnar sjálf. Með samhentu þjóðarátaki sem forseti Íslands gæti staðið fyrir ásamt íslenskum fjölmiðlum getum við kastað Facebook út á hafsauga á stuttum tíma og stjórnað okkar sjálf í netheimum.
Hugbúnaðar lausnirnar eru til staðar sem gera fólki kleift að flytja öll gögn of samskipti yfir á íslenskan samfélagsmiðil.
Á Bessastaði vantar leiðtoga með framtíðarsýn sem sefur ekki á vaktinni.
Ástþór Magnússon
Lesa á visir.is
https://www.visir.is/g/20242512495d/sjalfstaedi-thjodarinnar-i-haettu