Ástþór í Forystusætinu

Ástþór Forseti - Forystusætið 2024

Ástþór í Forystusætinu: Forseti Íslands getur talað um fyrir Pútín

Ástþór Magnússon er viss um að Pútín Rússlandsforseti tali við forseta Íslands. Ástþór var fyrsti forsetaframbjóðandinn sem rætt var við í Forystusætinu, sá reyndasti og býður sig fram í embættið í sjötta skipti

Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi er viss um að hann geti fengið viðtal við Vladimir Pútín Rússlandsforseta og samið um frið í Úkraínu verði hann kosinn forseti. Hann telur einnig að hægt verði að koma á friði milli Ísraels og Palestínu en það verði flóknara verkefni. Ástþór var fyrsti forsetaframbjóðandinn í Forystusætinu sem verður á dagskrá næstu vikur fram að kosningum.

Úkraína geti orðið hlutlaust sambandslýðveldi

Ástþór lýsti því í upphafi þáttar að hann hefði fengið vitranir fyrir 30 árum sem breyttu lífi hans og urðu til þess að hann bauð sig fyrst fram til embættis forseta.

Ein þessara vitrana lýsir atburðum sem eiga að gerast á næsta ári, 2025. Ástþór telur komið að ögurstundu og segir Íslendinga geta búist við því að ráðist verði á landið með kjarnorkusprengju, náist ekki friður við kjarnorkuveldið Rússland.

„Í dag er verið að nota byssukúlur sem íslenska þjóðin hefur borgað fyrir, þær eru notaðar í skriðdreka sem eru að skjóta inn í Rússland og drepa þar fólk. Það er mikil reiði þar. Það er búið að skilgreina Ísland frá því að vera friðarríki og vinaþjóð Rússa yfir í að vera óvinaþjóð.“

Ástþór hefur talað um að fyrsta verk hans sem forseti, hljóti hann kjör, verði að fara til Moskvu og semja við Pútín. Öðrum leiðtogum heimsins hefur ekki tekist að ná friði í stríði Rússa við Úkraínu en Ástþór telur að Pútín tali við forseta Íslands.

„Ég tel að Ísland hafi þá rödd og þá virðingu að tala fyrir friði.“

Ástþór segir Úkraínu geta orðið hlutlaust sambandslýðveldi svipað og Sviss. „Ef að þessi leið væri farin þá tel ég að Úkraína geti orðið mjög blómlegt ríki. Það yrði miðstöð viðskipta milli austurs og vesturs og myndi mjög hratt vaxa upp sem öflug þjóð.“

Ástþór hyggur líka á friðarumleitanir milli Ísraels og Palestínu.

„Við erum með verkefni hjá Frið 2000 sem heitir Alþingi Jerúsalem, og hugmyndin þar er að settur verði upp umræðuvettvangur fyrir fólkið í Jerúsalem þar sem fólkið á svæðinu geti komið og byrjað að ræða málin. Það er eitthvað sem við þurfum að leysa líka. Ég held að það muni reyndar taka aðeins lengri tíma en Úkraínudeilan. Ég held að hún sé frekar einföld að leysa.“

Forsetinn eigi að standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar

Er ekki einfaldara að þú myndir bjóða þig fram til Alþingis frekar en að gera þetta í gegnum forsetaembættið?

„Forsetaembættið er þverpólitískt embætti. Þess vegna er það það embætti sem getur unnið að friðarmálum eins og ég er að tala um.“

Ástþór var í lokin spurður hvern af ellefu meðframbjóðendum sínum hann myndi kjósa væri hann ekki sjálfur í forsetaframboði.

„Það skiptir engu máli fyrir fólk hvern af þessum ellefu það kjósi. Þetta fólk mun allt vera tilbúið til að standa með kjósendum í stríði, en ég er ekki tilbúinn í það. Ég vil vinna til friðar og fara og ná friðarsamningum við Rússa áður en okkur er tortímt hérna með kjarnorkusprengju.“

Ástþór segir mikinn ábyrgðarhluta að kasta atkvæði í fólk sem ætli að „stimpla alla vitleysuna sem komi frá Alþingi, það sé ekki hlutverk forseta.“

Forseti eigi að vera vörður. „Hann er fulltrúi þjóðarinnar og á að standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar á Bessastöðum.“

Skrá mig til leiks

Load More